Niðurstöður í samkeppnisútboði Kadeco um þróunaráætlun fyrir svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll voru kynntar í lok árs 2021, en það var alþjóðlega hönnunar- og skipulagsstofan KCAP sem varð hlutskörpust. Þrjú teymi, leidd af Arup, Jacobs og KCAP, komust áfram í lokaáfanga samkeppninnar og voru valin til að skila mótuðum tillögum byggðum á efnahagslegri greiningu.
Þær þrjár tillögur sem komust í úrslit samkeppninnar þóttu allar mjög góðar. Þær áttu það sameiginlegt að koma með góðar hugmyndir um hvernig flugvöllurinn getur verið efldur sem efnahagslegur drifkraftur fyrir Suðurnesin með ríka áherslu á umhverfis- og samfélagslega þætti. Í tillögunum kemur fram mikið af áhugaverðum hugmyndum sem Kadeco hefur rétt á að nýta í framhaldinu.
Hér fyrir neðan má lesa nánar um tillögurnar.
Tillagan þykir yfir höfuð mjög vel útfærð, hún nær umfangi og skala þróunarsvæðisins vel og sýn fyrir þróunaráætlun er skýr. Tillagan þykir raunsæ en jafnframt mjög spennandi. Gott jafnvægi er á milli uppbyggingar við flugstöð og á öðrum stöðum eins og Ásbrú og Aðalgötu. Einnig er lögð áhersla á að tengja kjarna svæðisins saman með með grænum svæðum þar sem virkir ferðamátar eru í forgrunni. Mikil áhersla er lögð á samvinnu við lykil hagaðila og samfélagið. Samgönguhluti tillögunnar er vel útfærður, en tillagan gerir ráð fyrir sérstakri forgangsbraut fyrir hraðar og vistvænar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Þetta býður upp á góða möguleika til að bæta samgöngur á milli Reykjaness og Reykjavíkur og tengir vel við bæði áætlanir um Borgarlínu sem og nærsamfélagið.
Tillagan er vel fram sett og vinnur út frá framtíðarsýn um hvernig flugvöllurinn getur styrkst enn frekar sem efnahagslegur drifkraftur. Tækifæri sem nefnd eru til frekari uppbyggingar eru Helguvík Eco-Industrial Park með áherslu á grænan iðnað, uppbygging í kringum aðkomu að flugvellinum með áherslu á vandaða og nútímalega hönnun sem tæki tillit til umhverfis svæðisins, áhersla á þróun í fraktflutningum og Ásbrú Eco-Industrial Park með áherslu á gagnaver. Einnig eru dregin fram fjölbreytt tækifæri sem miða öll að kolefnisjöfnun, til að mynda að Keflavíkurflugvöllur verði leiðandi í innleiðingu á endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir flugiðnaðinn og flughöfnina og að svæðið verði leiðandi í innleiðingu nýrra ferða- og flutningsmáta sem knúnir eru áfram af rafmagni.
Tillagan leggur fram skýra sýn fyrir þróunaráætlunina og sýnir almennt að höfundar hafa góða tilfinningu fyrir svæðinu. Gott og skýrt jafnvægi er á milli efnahagslegra-, samfélagslegra- og umhverfislegra þátta. Efnahagsleg tækifæri sem sett eru fram í tillögunni eru vel útfærð, en þau eru Reykjanes Torg, uppbygging nálægt flugvellinum, og Global TradePort , verkefni með áherslu á að tengja saman Diamond Gate og Helguvíkurhöfn og styrkja svæðið sem flutningamiðstöð. Samgöngutillaga og módel fyrir umhverfismat eru vel útskýrð. Tillagan sýnir mjög góðan skilning á staðbundnu umhverfi og náttúru og setur fram skýrar hugmyndir um hvernig hægt væri að nota það við mörkun svæðisins og í hönnun. Hugmyndir fyrir erlendar fjárfestingar eru einnig góðar, sérstaklega þótti frumleg hugmynd um framleiðslu gervidemanta.