Kadeco, Reykjanesbær, Reykjaneshöfn og Suðurnesjabær hafa unnið saman að mótun framtíðarsýnar fyrir Helguvík og Bergvík sem snýr að því að þar skapist tækifæri til að byggja upp grænan hringrásargarð; vistvænt athafna- og iðnaðarsvæði með áherslu á hringrásarhugsun og samvinnu. Helguvíkur-Bergvíkursvæðið er vel staðsett svæði fyrir iðnað og atvinnustarfsemi af ýmsum toga, nærri Helguvíkurhöfn, á milli Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar og nálægt Keflavíkurflugvelli. Góðir vegir liggja um svæðið og stutt er í þjóðveg 41 (Reykjanesbraut) sem liggur milli Keflavíkurflugvallarsvæðisins og höfuðborgarsvæðisins. Á svæðinu er nú þegar nokkur iðnaðarstarfsemi og er þar helsta innflutningsmiðstöð flugvélaeldsneytis til Keflavíkurflugvallar.
Út frá greiningarvinnu fyrir uppbyggingu á svæðinu hefur verið unnin skýrsla þar sem farið er yfir helstu þætti verkefnisins. Hér fyrir neðan er að finna stutta kynningu sem og fjóra meginkafla skýrslunnar þar sem fjallað er um sýn á uppbyggingu svæðisins, drifkrafta þróunar, rammaáætlun og innleiðingu.
Kynning: Helguvík og Bergvík (PDF)
Samantekt og yfirferð yfir helstu þætti verkefnisins.
Sýn á uppbyggingu svæðisins (PDF)
Í Helguvík og Bergvík er starfræktur grænn iðngarður sem byggir á framsýni, nýsköpun, sjálfbærni og hringrásarhugsjón. Í kaflanum er farið yfir möguleika svæðisins, helstu forgangsröðun og markmið í samræmi við rammaáætlun og þróunaráætlun K64.
Drifkraftar þróunar (PDF)
Með drifkröftum er átt við þá þætti, innri og ytri sem hægt er að hafa áhrif á við uppbyggingu á svæðinu. Með því að greina og skoða svæðið út frá þessum drifkröftum verður til stefna sem miðar að því að í Helguvík og Bergvík sé starfræktur grænn iðngarður með áherslu á hringrás. Skilgreindir hafa verið þrír flokkar drifkrafta; Skipulag og landslag (Spatial Elements), Iðnaður, atvinnusköpun og framtíðarþörf (Sector Profiles) og Orka, innviðir og leiðarvísir (Energy Strategy) – Leiðarvísir fyrir orku og aðra nauðsynlega innviði.
Rammaáætlun: framtíðarsýn og þemasvæði (PDF)
Með því að taka tillit til ólíkra þátta er raungerð sú sýn að í Helguvík og Bergvík rísi hringrásargarður sem samræmist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er á sama tíma eftirsóknarverð staðsetning fyrir atvinnustarfsemi og einstaklinga til að vinna á. Settar eru upp tillögur um þemasvæði fyrir ólíka starfsemi þar sem horft er til hringrásar og landnýtingar. Við útfærslu á verkefninu er meðal annars tekið tillit til hönnunar og staðarmörkunar, skilgreininga á lykilsvæðum, staðsetninga fyrir ólíka starfsemi, gatnakerfis sem mætir þörfum svæðisins, almenningsrýma og landmótunar og skiptinga lóða og stærða þeirra.
Innleiðing (PDF)
Þegar horft er til innleiðingar má skipta ferlinu niður í áfanga. Í þessu verkefni er sýnin mörkuð til ársins 2050 og tímabilinu skipt niður í þrjá áfanga. Ef tekin eru þau skref sem teiknuð eru upp má gera ráð fyrir að árið 2050 hafi skapast um 6000 ný störf á svæðinu með nýtingu á tæplega 200 ha svæði. Í kaflanum er farið yfir skipulagsleiðbeiningar og tillögur sem styðja við innleiðingu og framkvæmd rammaáætlunar HB og samræmingu deiliskipulagsáætlana við hana.
Um er að ræða leigulóðir í eigu Ríkissjóðs Íslands sem leigðar eru til 50 ára. Ársleiga lóðarleigu er 2% af fasteignamati lóðar fyrir atvinnuhúsnæði en 1,5 % af fasteignamati lóðar fyrir lóðir undir íbúðarhúsnæði, en þó að lágmarki 131,5 kr. pr. fermetra samkvæmt byggingarvísitölu desember 2023. Að öðru leyti gildir gjaldskrá Reykjanesbæjar.
Samræmdar reglur gilda um heimildir Kadeco til að gera samkomulag um forleigurétt við leigutaka lóða á starfssvæði Kadeco, annars vegar í lóðarleigusamningum og hins vegar í sérstöku samkomulagi vegna aðliggjandi lóða. Lesa má nánar um verklagsreglur um forleigurétt hér.