Ásbrú er nýr bæjarhluti í Reykjanesbæ, sem byggist upp á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins við Keflavíkurflugvöll. Reykjanesbær hefur ákveðið að Ásbrú verði næsta uppbyggingarhverfi í sveitarfélaginu, en þar er nú þegar fjölbreytt samfélag sem mun styrkjast enn frekar með uppbyggingu nýrra íbúða og innviða. Svæðið hefur mikla möguleika hvað varðar þéttingu byggðar og endurnýjun. Gert er ráð fyrir því að á Ásbrú geti risið allt að 14.000 íbúa hverfi á næstu 30 árum.
Þróunaráætlun K64 byggir á núverandi þéttbýlisskipulagi Ásbrúar með stærri og þéttari íbúðabyggð með sérhæfðum atvinnusvæðum á jaðrinum en nærþjónustu í miðjunni. Uppbygging mun eiga sér stað í áföngum og svæðin á Ásbrú, bæði íbúðarsvæði og atvinnusvæði, skilgreind með mismunandi nálgun í hönnun, skipulagi og áherslum eftir því sem við á. Markmiðið er að byggja upp ákveðna byggðaklasa á Ásbrú þar sem þéttleiki er meiri, samgöngutengingar góðar og finna má fjölbreytta þjónustu og atvinnutækifæri.
Sjá einnig ÁSBRÚ Rammaskipulag (PDF) og Kynning á rammaskipulagi fyrir Ásbrú (PDF).
Um er að ræða leigulóðir í eigu Ríkissjóðs Íslands sem leigðar eru til 50 ára. Ársleiga lóðarleigu er 2% af fasteignamati lóðar fyrir atvinnuhúsnæði en 1,5 % af fasteignamati lóðar fyrir lóðir undir íbúðarhúsnæði, en þó að lágmarki 131,5 kr. pr. fermetra samkvæmt byggingarvísitölu desember 2023. Að öðru leyti gildir gjaldskrá Reykjanesbæjar.
Samræmdar reglur gilda um heimildir Kadeco til að gera samkomulag um forleigurétt við leigutaka lóða á starfssvæði Kadeco, annars vegar í lóðarleigusamningum og hins vegar í sérstöku samkomulagi vegna aðliggjandi lóða. Lesa má nánar um verklagsreglur um forleigurétt hér.