K64 er heildstæð efnahags- og skipulagsleg þróunaráætlun fyrir svæðið í kringum Keflavíkurflugvöll, mikilvægustu gátt Íslands við umheiminn. K64 rammar inn markmiðadrifna þróun á þessu lykilsvæði, sem er unnin í nánu samráði við nærliggjandi sveitarfélög og yfirvöld flugmála á Íslandi. Grunn tilgangur K64 er að nýta betur þá miklu möguleika sem felast í nándinni við alþjóðaflugvöll sem getur verið efnahagslegur drifkraftur og einnig að samræma áætlanir margra aðila með ólík markmið til að ná að skapa sterka heild með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það leiði til hagsbóta fyrir íbúa, sveitarfélög og starfsemi á svæðinu, Suðurnesin öll og hugsanlega á landsvísu.
Suðurnesin eru einstakur staður þar sem mikil tækifæri eru til uppbyggingar. Nálægðin við langstærsta farþega- og fraktflugvöll landsins, fyrsta flokks hafnaraðstaða, aðgengi að grænni orku og fjölbreytt og fjölmennt samfélag dugmikils fólks skapar möguleika sem erfitt er að finna annars staðar.
Þróunaráætun K64 byggir á samvinnu sveitarfélaga og hagsmunaaðila og kallar fram samræmingu hugmynda og skipulagsáætlana til þess að skapa aðlaðandi og lífvænlegt samfélag. Umhverfi sem umbreytir Suðurnesjunum í heildstætt flugvallarsvæði með þeim tækifærum sem náið samstarf felur í sér.
Áætlunin eflir flugvallartengda starfsemi og undirbýr svæðið undir vöxt með aðlaðandi íbúðarhverfum, tækifærum til menntunar, fjölbreyttri menningu og þjónustu. Útfærsla þróunaráætlunar skapar einnig kærkomna og eftirminnilega komuupplifun fyrir farþega á leiðinni til landsins, tengingu milli sveitarfélaga og aðlaðandi umhverfi fyrir íbúa svæðisins.
Tækifærin hér eru mörg og markmiðið er að byggja á styrkleikum svæðisins, sem einnig eru margir. Til að nýta tækifærin sem best er lögð áhersla á uppbyggingu færri svæða sem hafa áhrif á þéttleika og verðmætasköpun. Þessi svæði verða tengd með landslagsmótun og fjölbreyttum samgöngum og mynda þannig samhentan eyjaklasa þéttingarreita. Keflavíkurflugvöllur er kjarninn í atvinnustarfseminni en tækifærin eru ólík á hverjum stað fyrir sig.
Áhersla er lögð á svæði sem bjóða upp á upplifun og einstök efnahagsleg tækifæri.
• Helguvík-Bergvík mun umbreytast í vistvænan iðngarð og hafa fyrstu skrefin í þá átt þegar verið tekin.
• Anddyri Keflavíkurflugvallar mun fá hlutverk sem viðskiptakjarni með hótelum og aðstöðu fyrir flugvallartengda þjónustu.
• Aðalgata tengir sveitarfélögin og verður að þróunarklasa þar sem fjölbreytt viðskiptatækifæri þróast í takti við samfélagið.
• Ásbrú verður að þéttu og fjölbreyttu hverfi með ólíkum búsetu- og atvinnutækifærum.
• Suðurnesjabær og Hafnir stækka sem búsetukjarnar sem njóta góðs af og styðja við vöxt svæðisins.
Það er erfitt að fullyrða um efnahagsleg áhrif vinnu sem ekki verður lokið fyrr en eftir áratugi en áætlanir gera ráð fyrir að um 400.000 fermetrar lands verði notaðir til þróunar og uppbyggingar fyrirtækja á svæðinu, að meira en 130 milljörðum króna verði varið til þessarar uppbyggingar á árunum til 2050 og að um 4.900 varanleg störf verði til vegna áhrifa þessara verkefna. Tekjur íbúa svæðisins munu hækka, sem og skatt- og leigutekjur sveitarfélaganna. Menntunarstig mun hækka, meðal annars vegna endurmenntunar og þjálfunar núverandi starfsfólks.
Til að halda utan um öll þessi ólíku verkefni og til að aðgreina þau frá fyrri starfsemi Kadeco var talið rétt að búa til nýtt heiti og ásýnd sem endurspeglar sérstöðu svæðisins og möguleika þess. Hugmyndafræðin og sérstaðan er svo nátengd staðsetningunni að ákveðið var að hún yrði ráðandi í þessu nýja nafni. Suðurnesin eru á 64. breiddargráðu og því hefur verkefnið hlotið heitið K64. K-ið í nafninu vísar til svæðisins, þróunarfélagsins og síðast en ekki síst flugvallarins sem er og verður kjarninn í atvinnulífi Suðurnesja.
Þetta er metnaðarfull áætlun og aðlaðandi framtíðarsýn. Margir þurfa að leggjast saman á árarnar til að þessi sýn geti orðið að veruleika og við hjá Kadeco og K64 hlökkum til að takast á við verkefni framtíðarinnar með öllum þeim sem hafa áhuga á uppbyggingu og þróun flugvallarsvæðisins.
Hægt er að kynna sér þróunaráætlun Keflavíkurflugvallarsvæðis nánar á www.k64.is