Kjarnaverkefni félagsins er að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu á landi við Keflavíkurflugvöll. Samstarf þessara aðila er grundvallaratriði til þess að tryggja að til verði heildstæð stefna og framtíðarsýn um þessi verðmætu landsvæði. Slík stefna miðar að því að nýta styrkleika flugvallarins sem drifkraft efnahagslegrar fjárfestingar, atvinnusköpunar og almennra lífsgæða á svæðinu og samfélagsins í heild.
Frá árinu 2006 hefur Kadeco unnið að þróun svæðis, ásamt leigu og sölu fasteigna, sem Bandaríkin afhentu Íslandi við brottför varnarliðsins. Í fyrstu var lögð aðaláhersla á að koma húseignum á Ásbrú í borgaraleg not. Sölu húsnæðis er nú lokið og er framtíðaráhersla lögð á landþróun svæðisins.