Kadeco kynnti í gær, fimmtudaginn 2. desember, þrjár tillögur sem komnar eru áfram í lokaáfanga samkeppnisútboðs um þróunaráætlun fyrir svæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll. Góð aðsókn var á kynningarfundinn, sem haldinn var fyrir helstu hagsmunaaðila verkefnisins. Fundarstjóri var Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ávarpaði einnig fundargesti áður en tillögurnar þrjár voru kynntar.
„Reykjanesið er lykilsvæði þegar kemur að efnahagsuppbyggingu þjóðarinnar. Á komandi áratugum verður stefnt að því að styrkja svæðið sem atvinnusvæði með því að laða að alþjóðleg fyrirtæki og fjárfesta. Með þróun og uppbyggingu fjölbreytts viðskiptaumhverfis mun Kadeco leitast við að tryggja efnahagslega seiglu svæðisins og stuðla að því að það verði alþjóðlega samkeppnishæft,“ sagði Bjarni Benediktsson.
Vonast er til þess að þróun svæðisins verði til þess að auka samkeppnishæfni Suðurnesjanna, fjölga atvinnumöguleikum og gera þau að enn betri stað til að búa á, starfa og heimsækja.
„Við lögðum áherslu á að tillögurnar hvettu til fjölbreytni í atvinnustarfsemi,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, „bæði til að nýta ólíka kosti svæðisins sem best en líka til að dreifa eggjunum í fleiri körfur, ef svo má segja, og reyna þannig að minnka líkur á samdrætti þegar ein atvinnugrein verður fyrir skakkaföllum, verja þannig svæðið fyrir áföllum eins og kostur er.“
Teymin sem standa að baki tillögunum þremur eru öll skipuð bæði erlendum og íslenskum fagaðilum. Teymin eru leidd af Arup, Jacobs og KCAP sem hafa viðamikla reynslu af metnaðarfullum og stórum skipulags- og uppbyggingarverkefnum víðs vegar um heiminn, svo sem Hong Kong Zhuhai-Macau brúnni og stækkun Heathrow flugvallar.
Forvali fyrir samkeppni um þróunaráætlun var hleypt af stað í maí á þessu ári á útboðsvef Evrópska efnahagssvæðisins. Alls bárust umsóknir frá 25 alþjóðlegum teymum um að fá að taka þátt í samkeppninni. Niðurstaða úr samkeppninni verður kynnt síðar í desember eftir að matsnefnd skipuð fagaðilum hefur lokið úttekt á tillögunum þremur.
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hefur það meginmarkmið að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll.