Nú er formlega hafin hönnunarsamkeppni Kadeco um þróunarsvæðið umhverfis Keflavíkurflugvöll. Samkeppnin er auglýst á útboðsvef evrópska efnahagssvæðisins. Fyrsta skref samkeppninnar er að áhugasamir þátttakendur munu skila inn gögnum um hæfi og fyrirætlanir. Úr þessum gögnum verða svo valin fimm teymi sem taka þátt í valferli sem standa mun yfir á árinu.
Á meðal markmiða er að skapa umhverfi fyrir atvinnulíf, þjónustu og mannlíf sem hefur hag af því að vera í námunda við alþjóðaflugvöll, höfn og greiðar samgöngur til höfuðborgarinnar. Þannig er vonast til þess að þróun svæðisins verði til þess að auka samkeppnishæfni Suðurnesjanna, fjölga atvinnumöguleikum og gera þau að enn betri stað til að búa á, starfa og heimsækja.
Auglýst var eftir þátttakendum með reynslu af þróun sambærilegra svæða og hafa mörg stór alþjóðleg fyrirtæki lýst yfir áhuga á að taka þátt. Á seinni stigum samkeppninnar gerir Kadeco kröfu um að þátttakendur starfi náið með íslenskum fyrirtækjum sem hafa reynslu af að starfa í íslensku umhverfi. Gert er ráð fyrir að kynna þau fyrirtæki sem komast áfram á næsta stig samkeppninnar í sumar og í lok árs má búast við að sigurtillagan verði kynnt. Í gegnum allt ferlið verður óskað eftir þátttöku íbúa á svæðinu, fyrirtækja og annarra hagaðila og hefur Kadeco þegar fengið fjölda góðra ábendinga og hugmynda sem notaðar verða við vinnuna sem framundan er.