Margar frábærar hugmyndir um framtíð Ásbrúar litu dagsins ljós í vinnusmiðjum með grunnskólabörnum í Háaleitisskóla sem haldnar voru síðastliðinn fimmtudag og föstudag. Hönnunarteymið ÞYKJÓ hafði umsjón með smiðjunum þar sem nemendur úr öllum árgöngum skólans, frá fyrsta og upp í tíunda bekk, útfærðu hugmyndir sínar með fjölbreyttum og skapandi hætti. Unnið var með módel- og klippimyndagerð, skuggaleikhús og veggjalist auk þess sem nemendur byggðu ævintýraleikvelli og fóru í vettvangsferðir um nærumhverfi Háaleitisskóla. Sundlaug, hundaleiksvæði og parísarhjól eru meðal þess sem nemendur hafa áhuga á að sjá á Ásbrú í framtíðinni, ásamt ótalmörgu öðru. Afrakstur vinnusmiðjanna verður kynntur á Ásbrúardeginum sem haldinn verður í maí, en dagskrá hans verður betur kynnt þegar nær dregur.