January 25, 2021
25/1/2021

Kadeco efnir til alþjóðlegrar samkeppni um þróunarsvæði við Keflavíkurflugvöll

Nýverið tilkynnti Kadeco fyrirhugaða samkeppni á útboðsvef evrópska efnahagssvæðisins. Í samkeppninni verður lögð áhersla á þróunarsvæði sem meðal annars styrkja tengingarnar á milli Keflavíkurflugvallar og Helguvíkurhafnar, sveitarfélaganna við flugvöllinn og höfuðborgarsvæðið. Ætlunin er að fá fram metnaðarfullar tillögur um hvernig svæðið getur þróast til ársins 2050.

Í fyrsta áfanga er óskað eftir upplýsingum frá áhugasömum þátttakendum og í framhaldinu fer fram valferli um hverjir komast áfram á næstu stig. Um miðbik 2021 er gert ráð fyrir að kynntur verði listi yfir þátttakendur sem komast í úrslit samkeppninnar og áætlað er að endanleg niðurstaða liggi fyrir seinni hluta 2021.

„Suðurnesin eru eitt mest spennandi uppbyggingarsvæði á Íslandi um þessar mundir,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco. „Það sést meðal annars á þeim áhuga sem samkeppnin hefur nú þegar fengið hjá alþjóðlegum ráðgjafar- og hönnunarfyrirtækjum. Þessi áhugi gefur okkur fyrirheit um að í samkeppnina berist bæði sterkar og fjölbreyttar tillögur. Við erum spennt fyrir því að vinna að þessu verkefni næstu mánuði og hlökkum til samstarfsins við hönnuði, sveitarfélögin, Isavia og íbúana hér í kring.“

Þróunarkjarni fyrir atvinnulíf og samfélag

Markmið þróunaráætlunarinnar er að leggja grunn að þróunarkjarna fyrir atvinnulíf og samfélag í góðum tengslum við flugvöllinn og byggðina í kring. Í þeirri vinnu er horft til lykilgreina eins og vöruflutninga, flugsamgangna, sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku. Áætlunin getur nýst sem mikilvægur vettvangur nýsköpunar og virðisaukningar í þessum og tengdum greinum. Með því að auka fjölbreytni efnahagslífs á Suðurnesjum og horfa á svæðið heildrænt sem eitt skipulagssvæði er vonast til að laða fleiri innlend og alþjóðleg fyrirtæki og fjárfesta að þessu vaxtarsvæði.

Víðtækt samráð og samstarf

Ný þróunaráætlun verður fasaskipt og sveigjanleg, unnin í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Á meðan á undirbúningi stendur verða haldnir samráðsfundir fyrir fjölbreytta hópa fólks sem býr og starfar í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Áhersla er lögð á að fá sem flestar skoðanir að borðinu svo tækifæri svæðisins verði nýtt sem best.

Þróun svæðisins umhverfis Keflavíkurflugvöll er samstarfsverkefni íslenska ríkisins, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Isavia. Kadeco er samstarfsvettvangur þessara lykilaðila.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?