Fréttir af strönduðu flutningaskipi í Súesskurði hafa vakið ótal áhugaverðar umræður um stöðu vöruflutninga í heiminum. Ljóst er að skurðurinn er einn lykilþátta siglingakerfisins og þegar umferð um hann stöðvast þá hefur það áhrif á vöruflutninga um allan heim. Óhjákvæmileg afleiðing nýliðinna atburða í Súesskurði er umræður um aðrar siglingaleiðir milli Atlantshafs og Kyrrahafs og í því samhengi er freistandi að hugsa um staðsetningu Íslands.
Vöruflutningar til og frá Íslandi eru einn af þeim þáttum sem eru ofarlega í huga Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, ekki síst með tilliti til nálægðar Keflavíkurflugvallar við Helguvíkurhöfn. Í dag er Helguvíkurhöfn fyrst og fremst fraktskipahöfn í tengslum við starfsemi á iðnaðarsvæðinu í Helguvík en þjónar einnig sem löndunarhöfn fyrir uppsjávarskip. Fraktskipum hefur fjölgað mikið í Helguvíkurhöfn á síðustu árum samhliða uppgangi flugvallarins og er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu um ókomna framtíð. Þar er mikið rými til stækkunar og aðeins fjórir kílómetrar frá höfninni til Keflavíkurflugvallar. Þetta skapar mörg tækifæri og gæti verið samkeppnisforskot fyrir Ísland sem flutningaland. Mörg tækifæri eru fyrirséð í rekstri og uppbyggingu iðnaðarsvæðisins í Helguvík ef samspil stórskipahafnar og alþjóðaflugvallar er haft að leiðarljósi.
Tækifæri á borð við þessi, ásamt fjölmörgum öðrum, verða á meðal þess sem kallað verður eftir að skoða í alþjóðlegri hönnunar- og hugmyndasamkeppni sem Kadeco stendur fyrir síðar á árinu. Nú þegar hafa margar af helstu hönnunar- og ráðgjafarstofur heims lýst yfir áhuga sínum á að taka þátt og móta þannig sýn fyrir framtíð Suðurnesja og Íslands. Þó svo að flutningaskip á lengd við 17 Hallgrímskirkjur muni kannski seint leggja leið sína um íslenskar hafnir fleygir tækninni fram samhliða auknum kröfum um flutningstíma vara og kolefnisfótspor flutninga. Ísland getur án efa verið í stóru hlutverki í þeirri þróun og er athafnasvæðið við Keflavíkurflugvöll tækifæri sem litið verður til á alþjóðavísu.
Greinin birtist á Vísi 30. mars 2021.