Kadeco, Isavia, Reykjanesbær og Suðurnesjabær kynntu þróunarverkefnið K64 á stórsýningunni Verk og vit sem fór fram í Laugardalshöll dagana 18. – 21. apríl.
Á sameiginlegum sýningarbás gátu gestir kynnt sér fjölbreytt þróunarverkefni K64 nánar, uppbyggingaráform Isavia við Keflavíkurflugvöll og hina ýmsu uppbyggingu innan sveitarfélaganna.
Kadeco lagði sérstaka áherslu á uppbyggingu á grænum hringrásariðngarði í Helguvík og Bergvík en verkefnið er leitt af starfsfólki Kadeco og unnið í samvinnu við Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ.
Við erum ánægð með það hve margir lögðu leið sína á sýninguna og þakklát fyrir þann áhuga sem gestir sýndu sýningarbásnum og verkefnunum sem við vorum að kynna.
Þá fór fram málstofa föstudaginn 19. apríl undir yfirskriftinni Suðurnes, tengingar til allra átta: Uppbygging og atvinnusköpun á Suðurnesjum og við Keflavíkurflugvöll. Þar sagði Brynjar Vatnsdal, deildarstjóri þróunardeildar Isavia, frá framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli og Bergný Jóna Sævarsdóttir, sjálfbærnistjóri Kadeco, frá hinum ýmsu þróunarverkefnum, meðal annars græna iðngarðinum.
Við þökkum öllum gestum okkar fyrir komuna á sýningarbásinn okkar á Verk og vit og samtölin um uppbyggingarverkefni á Suðurnesjum. Það er ljóst að það eru spennandi tímar fram undan.