May 19, 2023
19/5/2023

Aðalfundur Kadeco og ársskýrsla

Aðalfundur Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, var haldinn miðvikudaginn 10. maí. Á fundinum var ársreikningur félagsins kynntur og ársskýrsla gefin út. Í stjórn Kadeco voru kjörin Steinunn Sigvaldadóttir, Einar Jón Pálsson, Ísak Ernir Kristinsson, Eva Stefánsdóttir sem kemur ný inn í stjórn fyrir hönd Reykjanesbæjar í stað Kjartans Más Kjartanssonar og Guðmundur Daði Rúnarsson sem kemur nýr inn í stjórn fyrir hönd Isavia í stað Elínar Árnadóttur. Hrafn Hlynsson var kjörinn varamaður. Kjartani og Elínu var þakkað fyrir vel unnin störf.

Árið 2022 var mikilvægt í starfsemi Kadeco. Það einkenndist fyrst og fremst af vinnu við gerð nýrrar þróunaráætlunar fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, en áætlunin mun hafa mótandi áhrif á uppbyggingu svæðisins næstu áratugina. Þróunaráætlunin, K64, leit dagsins ljós í mars 2023 og hefur hún fengið ákaflega góðar viðtökur og vakið athygli bæði innanlands og utan. Á komandi mánuðum verður farið af fullum krafti í kynningu og markaðssetningu þróunarsvæðisins, en útfærsla áætlunarinnar og uppbygging er þegar hafin.

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri: „Hjá Kadeco einkenndist árið 2022 af kraftmiklu og frábæru samstarfi við fjölda aðila sem unnu með okkur að gerð þróunaráætlunar fyrir nærumhverfi Keflavíkurflugvallar. Markmið okkar allra er að gera vel og styrkja framtíð Suðurnesja, sem eru einstakur staður með einstök tækifæri til uppbyggingar sem bæði nærsamfélagið og þjóðin öll geta notið góðs af. Áætlunin byggir á samvinnu sveitarfélaga og hagsmunaaðila og kallar fram samræmingu hugmynda og skipulagsáætlana til þess að skapa aðlaðandi og lífvænlegt samfélag. Þetta er metnaðarfull áætlun og spennandi framtíðarsýn. Margir þurfa að leggjast saman á árarnar til að þessi sýn geti orðið að veruleika, en ég er sannfærður um að afraksturinn sé þess virði og vel það.”

Steinunn Sigvaldadóttir, formaður stjórnar: „Við erum mörg sem höfum komið að gerð þróunaráætlunar og við komum úr ólíkum áttum en öll höfum við mikinn metnað fyrir verkefninu og það sameiginlega markmið að vilja styrkja framtíð svæðisins í grennd við Keflavíkurflugvöll með hagsmuni komandi kynslóða í huga. Það er hagur okkar allra að vel takist til. Fyrir hönd stjórnar Kadeco langar mig að þakka öllum þeim sem komu að gerð þróunaráætlunar og ekki síst alla samráðsvinnu undanfarin ár, sem og starfsfólki Kadeco sem hefur haldið ákaflega vel utan um þetta mikilvæga verkefni.

Ársskýrslu og ársreikning fyrir árið 2022 er að finna hér.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?