Aðalfundur Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, var haldinn fimmtudaginn 30. júní. Á fundinum var ársreikningur félagsins kynntur og ársskýrsla gefin út. Engar breytingar verða á stjórn félagsins frá fyrra ári, en á fundinum voru þau Steinunn Sigvaldadóttir, Elín Árnadóttir, Ísak Ernir Kristinsson, Einar Jón Pálsson og Kjartan Már Kjartansson öll endurkjörin til stjórnarsetu. Steinunn Sigvaldadóttir verður áfram formaður stjórnar og Ísak Ernir Kristinsson varaformaður.
Viðburðaríkt starfsár
Árið 2021 var bæði viðburðaríkt og mikilvægt hjá Kadeco, er félagið stóð fyrir samkeppnisútboði um þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar. Mikill áhugi var á samkeppnisútboðinu en alls sóttust 25 teymi víða að úr heiminum eftir að taka þátt í forvali, skipuð fyrirtækjum í fremstu röð á sínu sviði. Samkeppnisferlið stóð yfir meirihluta ársins 2021 en í desember kynntu þrjú teymi, leidd af Arup, Jacobs og KCAP, lokatillögur sínar. Úrslitatillögurnar þóttu allar mjög góðar, en dómnefnd skipuð innlendum og erlendum aðilum valdi að lokum tillögu KCAP-teymisins. Frá því vinningstillagan var valin í desember hefur Kadeco unnið áfram með KCAP að gerð þróunaráætlunar.
Lesa má meira um samkeppnisferlið, úrslitatillögurnar þrjár og framtíðaráætlanir fyrir þróunarsvæðið í ársskýrslu Kadeco.
Ársskýrslu og ársreikning fyrir árið 2021 er að finna hér.