June 16, 2021
16/6/2021

Fimm komust áfram í alþjóðlegri samkeppni Kadeco

Fimm fjölþjóðleg teymi hafa verið valin til áframhaldandi þátttöku í forvali Kadeco um þróunaráætlun fyrir stórt svæði umhverfis Keflavíkurflugvöll. Alls bárust í samkeppnina tillögur frá 25 teymum og hvert þeirra samanstendur af sex til tíu fyrirtækjum. Á meðal umsækjenda eru virtustu og stærstu fyrirtæki heims á sínu sviði og er það til marks um áhugann sem verkefnið hefur vakið á alþjóðavísu.

Kadeco er samstarfsvettvangur íslenska ríkisins, Isavia, Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar um heildræna þróun nærumhverfis Keflavíkurflugvallar. Endanleg útkoma úr samkeppninni sem kynnt var í byrjun árs verður þróunaráætlun svæðisins til ársins 2050. Áætlunin mun byggja á styrkleikum svæðisins, tengslum við flugvöll og hafnir og að byggðarþróun til framtíðar verði til þess að gera Suðurnesin að enn betri stað til að búa á og starfa.

Næstu mánuði munu teymin fimm sem komust áfram í forvali samkeppninnar vinna sínar tillögur áfram. Tilkynnt verður um sigurvegara og vinningstillögu samkeppninnar undir lok ársins 2021.

Teymin sem komust áfram eru í stafrófsröð:

AECOM

AECOM er með höfuðstöðvar í Los Angeles í Bandaríkjunum en starfsemi um allan heim. Um 87.000 manns starfa hjá fyrirtækinu og var það í 157. sæti á Fortune 500 listanum árið 2019.

Tíu samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Íslenskir samstarfsaðilar eru VSB, Háskólinn í Reykjavík, Storð teiknistofa, LISKA ehf og Andersen & Sigurdsson. Aðrir samstarfsaðilar eru UNStudio, Grant Associates, Pascall + Watson, UNSense og Atelier Ten.

Arup

Arup er fjölþjóðlegt hönnunarfyrirtæki með höfuðstöðvar í London. Um 16.000 manns starfa hjá fyrirtækinu og hefur það tekið þátt í verkefnum í meira en 160 löndum.

Sex samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Íslenskir samstarfsaðilar eru Yrki arkitektar, Environice og Vatnaskil. Aðrir samstarfsaðilar eru Arquitectura Agronomía og KPMG.

Jacobs

Jacobs er alþjóðleg verkfræðistofa með höfuðstöðvar í Dallas í Bandaríkjunum. Um 55.000 manns starfa hjá fyrirtækinu á 400 skrifstofum víða um heim.

Sjö samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Íslenskur samstarfsaðili er VSB. Aðrir samstarfsaðilar eru Grimshaw, GROSS.MAX, GLD, ChappelKing og Future City.

KCAP

KCAP er hollenskt fyrirtæki með starfsemi víða um heim. Fyrirtækið sérhæfir sig í hönnun og skipulagi og leggur áherslu á tengslin milli arkitektúrs og borgarþróunar. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á sjálfbærni og fólksmiðaða hönnun.

Tíu samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Íslenskur samstarfsaðili er VSÓ. Aðrir samstarfsaðilar eru Felixx, Buro Happold, MIC, Buck Consultants, WSP, Amberg, Maurits Schaafsma og Base.

OMA

OMA er hollensk arkitektastofa með höfuðstöðvar í Rotterdam og skrifstofur í New York, Peking og Hong Kong. Fyrirtækið var stofnað árið 1975 af hollenska arkitektinum Rem Koolhaas og gríska arkitektinum Elia Zenghelis, ásamt Madelon Vriesendrop og Zoe Zenghelis.

Sjö samstarfsaðilar eru að baki tillögunni. Íslenskur samstarfsaðili er Verkís. Aðrir samstarfsaðilar eru MDP, WSP, Pragma, Space Agency og JVST.

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco:

Þátttaka í samkeppninni var framar vonum og sérstaklega er ánægjulegt að sjá hversu öflugir aðilar tóku þátt. Að velja úr þessum 25 teymum var mjög erfitt og í raun erfiðast að þurfa að hafna 20 mjög góðum teymum. Næstu mánuðir verða bæði spennandi og flóknir þar sem við munum fækka úr fimm í einn sigurvegara sem mun halda vinnunni áfram með okkur. Ljóst er að samkeppnin mun ekki einungis skila vandaðri þróunaráætlun fyrir svæðið. Hún hefur einnig án efa nú þegar skilað áhuga á flugvallarsvæðinu og Íslandi auk dýrmætra tengsla á milli íslenskra fyrirtækja og alþjóðlegra fyrirtækja á heimsmælikvarða. Þær tengingar og sú þekking sem verður til í samstarfi sem þessu eru gríðarlega mikilvægar fyrir þennan geira á Íslandi.  

Stuart Cairns, lögmaður hjá Bird & Bird:

Ég hef unnið við ráðgjöf og skipulagt fjölda sambærilegra samkeppna undanfarna áratugi. Aldrei fyrr hef ég séð jafn mikinn áhuga jafn stórra fyrirtækja á útboði. Að fá 25 teymi til þátttöku er stórkostlegur árangur og sýnir hversu mikill alþjóðlegur áhugi er á að taka þátt í uppbyggingu svæðisins umhverfis Keflavíkurflugvöll. Þetta er auðvitað óskastaða fyrir Kadeco og Ísland að svona stór og öflug fyrirtæki berjist um að fá að taka þátt í framtíðarþróun þessa svæðis.

Þróunarsvæðið

Í heild hefur Kadeco umsjón með 55 ferkílómetra svæði við Keflavíkurflugvöll. Í samkeppninni er lögð áhersla á ákjósanleg þróunarsvæði sem meðal annars styrkja tengingarnar á milli flugvallarins og Helguvíkurhafnar, sveitarfélaganna á svæðinu við flugvöllinn og höfuðborgarsvæðið.

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?