Yfir tvö hundruð fagaðilar víða um heim fylgdust með kynningarfundi Kadeco á fyrirhugaðri samkeppni um þróun svæðisins umhverfis Keflavíkurflugvöll. Í kjölfarið hefur starfsfólk Kadeco haldið framhaldsfundi með áhugasömum aðilum. Í maí stendur svo til að tilkynna um það hverjir verða valdir til þátttöku í samkeppninni. Gert er ráð fyrir að sigurtillagan verði kynnt í október 2021.
Á kynningarfundinum var farið yfir umfang verkefnisins og áherslur, styrkleika Suðurnesjanna og Íslands í heild. Auk þess var farið sérstaklega yfir fyrirkomulag samkeppninnar. Lögmannsstofan Bird & Bird hefur verið fengin til ráðgjafar um fyrirkomulagið en stofan hefur mikla reynslu af skipulagningu samkeppna af þessu tagi.
Hönnunarstofurnar sem hafa sýnt verkefninu áhuga eru bæði stórar og smáar en eiga það sameiginlegt að hafa mikla og fjölbreytta reynslu af alþjóðlegum verkefnum. Þessi mikli áhugi gefur fyrirheit um að sterkar tillögur berist í samkeppnina. Verkefnið er mikilvægt fyrir Suðurnesin og Ísland í heild og er eitt af markmiðunum að efla Suðurnesin enn frekar sem stað til að búa, starfa á og heimsækja.
Markmið samkeppninnar er að fá fram ramma utan um þróun byggðarinnar umhverfis flugvöllinn til langrar framtíðar. Henni er einnig ætlað að vera samráðsvettvangur við íbúa og atvinnulíf með það að markmiði að efla byggðina, greina og fullnýta tækifæri svæðisins.
Kadeco er samráðsvettvangur íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar og er meginmarkmið félagsins að hafa umsjón með þróun lands umhverfis Keflavíkurflugvöll. Í samkeppni um þróunaráætlun er lögð megináhersla á það svæði sem tengir byggðina við flugvöllinn og Reykjanesbrautina. Mikil áhersla er lögð á fólksmiðaða nálgun í takt við umhverfið og sjálfbæra þróun.