November 11, 2024
21/12/2024

Börnin að borðinu er Verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024

Verkefnið Börnin að borðinu eftir hönnunarteymið ÞYKJÓ var valið Verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024, sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Grósku þann 7. nóvember. Verkefnið var unnið fyrir Reykjanesbæ og Kadeco, með börnum og kennurum í Háaleitisskóla á Ásbrú. Nemendur úr öllum árgöngum skólans tóku þátt í vinnusmiðjum leiddum af ÞYKJÓ, þar sem þau kynntu sér rammaskipulag Ásbrúar og útfærðu hugmyndir sínar um uppbyggingu og þróun hverfisins með fjölbreyttum og skapandi hætti.

Verkefnið þótti skara fram úr fyrir að vera frumlegt og áhugavert dæmi um hvernig hægt er að miðla hugmyndum barna og ungmenna af alvöru og virðingu með það að leiðarljósi að gefa þeim rödd og virkja til áhrifa.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

„Hönnunarteyminu Þykjó tekst með frábærri nálgun sinni að fanga hugmyndir og smíða úr þeim tillögur að lausnum sem geta orðið að veruleika. Verkefnið krefst hvort tveggja hugrekkis og trausts því oft er ekki hlustað á börn þó að við heyrum vissulega flest hvað þau segja. Eins er takmörkuð hefð fyrir því að hugmyndum barna og ungmenna sé miðlað af alvöru og virðingu og unnið markvisst að því að hrinda þeim í framkvæmd. Í verkefni Þykjó er börnum liðsinnt við að hugsa praktískt, hvort sem það á við um leiksvæði eða ruslatunnur. Leikurinn er ávallt í forgrunni auk samveru, náttúru og fegurðar, vegna þess að börn vilja gjarnan blanda geði og þau vilja betri heim öllum til handa.

Það er fagnaðarefni og fordæmisgefandi að hönnun sé notuð til að efla samtal og skilning, meðal annars þegar bæjarfélag deilir áformum sínum og draumum um framtíðina með börnum og kallar eftir samstarfi við þau. Þetta var hluti af virku samráði um nýtt rammaskipulag fyrir Ásbrú sem var samstarfsverkefni Kadeco og Reykjanesbæjar og unnið af Alta. Börn og ungmenni eru virkur og dýrmætur hluti samfélagsins og það þarf að gera ráð fyrir sjónarmiðum þeirra og þörfum.

Rammaskipulag er í hugum flestra býsna tyrfið hugtak og flókið viðfangsefni. Það er því ærin áskorun að miðla því til barna og virkja þau til þátttöku og samtals. Með vel ígrunduðum aðferðum og útsjónarsemi hefur Þykjó tekist vel upp. Verkefnið Börnin að borðinu sýnir hvernig hægt er að fá fram sjónarmið barna um flókin og viðamikil mál ef vilji er fyrir hendi. Mögulegt er að nýta verkefnið sem fyrirmynd á fleiri sviðum þar sem raddir barna og ungs fólks ættu að heyrast.“

Frá vinnustofum með nemendum í Háaleitisskóla

Lesa má nánar um Hönnunarverðlaun Íslands 2024 og verkefnið Börnin að borðinu á vef Hönnunarmiðstöðvar

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?