November 13, 2020
9/12/2020

Innleiðingu hringrásarhagkerfis hraðað á Suðurnesjum

Umræðufundur var haldinn í vikunni um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til eflingar samfélagsins á Suðurnesjum, þar sem eru fjögur sveitarfélög: Grindavík, Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Vogar. Auk sveitarfélaganna fjögurra taka Kadeco, Isavia og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum þátt í Suðurnesjavettvangnum sem stóð að þessum rafræna fundi. 140 manns tóku þátt í fjörlegum umræðum í málefnahópum. Tilkynnt var í lok fundarins að allir sem standa að Suðurnesjavettvangnum myndu skrifa undir yfirlýsingu um að hraða innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Í því felst m.a. skuldbinding um að vinna áfram að aðgerðum til að vinna að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, sameinast gegn þeirri ógn sem felst í plasti í umhverfinu og ráðist verði í aðgerðir gegn matarsóun. Sérstökum hópi verður falið að halda utan um verkefnið.

Markmið allra í þessari vinnu var að snúa vörn í sókn á Suðurnesjum, efla atvinnulíf og styrkja innviði svæðisins. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lýsti aðdáun sinni á þeirri vinnu sem lægi að baki, hvernig tekist hafi til við að endurskoða áætlanir og leiðir eftir að Covid-19 skall á. Þar hefði komið til þrjóska, dugnaður, þolinmæði og metnaður fyrir hönd samfélagsins. „Tækifærin eru óteljandi á Suðurnesjum,” sagði forsætisráðherra.

Aðrir ráðherrar sem ávörpuðu fundinn voru Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmunur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Öll fögnuðu þau framtakinu og samstöðu Suðurnesjamanna í því verkefni að hefja nýja sókn og hétu stuðningi sínum.

Bæjarstjórarnir fjórir á Suðurnesjum kynntu niðurstöður málefnahópa. Sameiginlegur vilji allra er að Suðurnesin verði hringrásarhagkerfi, dregið verði úr úrgangi og endurvinnsla aukin. Fram kom það sjónarmið að í raun ætti ekki að tala lengur um „rusl” heldur „hráefni.” Sveitarfélögin og fyrirtækin á Suðurnesjum ætla að vinna saman kolefnisbókhald, mæla kolefnisfótspor og setja sér markmið um losun.  Þá var rætt um vistvæna iðngarða, Eco-Industrial Park eða Suðurnesjagarð, í nágrenni Keflavíkurflugvallar, og flugvöllurinn verði hleðslustöð fyrir vistvænar flugvélar framtíðarinnar. Að síðustu má nefna hugmyndir um að komið verði á fót alþjóðlegum umhverfisháskóla á Suðurnesjum og að umhverfisfræðsla verði ríkari þáttur í kennslu frá grunnskólaaldri.

Fram kom í opnunarávarpi Sveinbjarnar Indriðasonar, forstjóra Isavia, að síðustu mánuðir hefðu verið þungbærir vegna áhrifa heimsfaraldursins á flugið og ferðaþjónustuna. „En við ætlum að standa þetta af okkur og horfa til framtíðar,” sagði Sveinbjörn og benti á að Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna væru meðal leiðarljósa. „Við teljum einfaldlega að þessar áherslur muni skapa okkur samkeppnishæfni til framtíðar.”

Hér má sjá upptöku af lokahluta fundarins

Fréttir

Nánar

News

More

Ertu með spurningar?